top of page
Search
Writer's pictureSnaefridur Ingadottir

Bílabíó - Nýtt á Tenerife

Nýlega opnaði fyrsta bílabíóið á Kanaríeyjum. Bíóið er staðsett á suðurhluta Tenerife, nánar tiltekið í Las Chafiras hverfinu í San Miguel de Abona.



Við fjölskyldan heimsóttum hið glænýja útibíó, Autocinema stuttu eftir að það opnaði og upplifunin var góð. Bíóið er á ​​16,000 m2 svæði og hægt að velja um hvort setið er í eigin bíl eða utandyra á sófasvæði við veitingasöluna eða í klappstólum fyrir framan bíóskjáinn.

Hægt er að fá sykrað popp eða venjulegt saltað popp í bíóinu.


Myndin sem við fórum á var teiknimynd með ensku tali en spænskum texta. Við keyptum miðana fyrirfram á heimasíðu bíósins og greiddum 34 evrur fyrir okkur fimm manna fjölskylduna. Þegar við komum inn á svæðið sýndi starfsmaður hvar við máttum leggja bílnum og annar gekk á milli bílanna og þreif framrúðurnar. Myndin var sýnd á risastóru bíótjaldi en til þess að heyra hljóðið stilla gestir á ákveðna rás í útvarpinu. Útvarpið í okkar bíl var bilað en það kom ekki að sök þar sem starfsmenn lána gestum ferðaútvarp ef á þarf að halda.


Útisvæði bíósins er skemmtilegt.


Í veitingasölunni er að sjálfsögðu hægt að kaupa popp og gosdrykki en einnig vín og meira að segja kampavín. Þá er þar einnig hægt að kaupa einfaldar veitingar á borð við samlokur, hamborgara, franskar, pylsur og fleira - og það sem meira er þá kemur starfsfólkið með matarsendinguna beint í bílinn. Það má því vel sameina bíóferð við kvöldmatinn.


Við fjölskyldan höfðum aldrei farið í bílabíó áður og börnunum fannst bíóferðin algjört ævintýri. Allir skemmtu sér konunglega, bláa poppið sló í gegn og óhætt að mæla með þessari upplifun fyrir þá sem langar í öðruvísi bíóferð á Tenerife.


Vantar þig fleiri fjölskylduvænar hugmyndir fyrir ferðalagið til Tenerife? Kíktu í Tenerife krakkabókina. Sjá hér: https://www.lifiderferdalag.is/product-page/tenerife-krakkabókin




252 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page